DANSK ÍSLENSKA NORSK ENGLISH

You are here: Velkomin Ambassadorar Svana Helen Björnsdóttir

Svana Helen Björnsdóttir

Forstjóri og stofnandi, Stiki

 

 www.stiki.eu  svana@stiki.eu

 

Svana stundaði nám í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands. Hún stundaði framhaldsnám í rafmagnsverkfræði við Technische Universität Darmstadt í Þýskalandi og lauk þaðan Dipl.-Ing. meistaraprófi í raforkuverkfræði árið 1987. Á námstímanum starfaði Svana hjá Siemens í München og AEG í Seligenstadt. Svana hefur einnig stundað nám í rekstrarverkfræði við Háskóla Íslands og hlotið alþjóðleg starfsréttindi sem vottaður úttektarmaður stjórnkerfa fyrirtækja sem byggja á alþjóðlegum stöðlum.

Svana hefur starfað sem sérfræðingur á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðarverkfræði í margvíslegum verkefnum fyrir bæði fyrirtæki og stofnanir. Hún hefur verið tilsjónarmaður stjórnvalda með ýmsum verkefnum þar sem unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar.

Svana stofnaði fyrirtækið Stika árið 1992 og árið 1996 stofnaði hún dótturfyrirtækið Stiki Ltd. í Bretlandi. Starfsemi Stika er á sviði upplýsingatækni, hugbúnaðarþróunar og ráðgjafar. Mikil áhersla er lögð á upplýsingaöryggi og gæði í allri starfsemi fyrirtækisins. Öll starfsemi Stika er gæðavottuð skv. ISO 9001 og öryggisvottuð skv. ISO/IEC 27001. Stiki er viðurkenndur samstarfsaðili bresku staðlastofnunarinnar BSI í London og gullvottaður samstarfsaðili Microsoft.

Svana hefur setið í stjórn ýmissa félaga og stofnana, þar á meðal Persónuverndar, Verkfræðingafélags Íslands og Skýrslutæknifélags Íslands. Hún hefur átt sæti  í fagráði í upplýsingatækni, fagráði Tækniþróunarsjóðs Rannís og í fagráði Rannsóknarsjóðs. Svana var um árabil fulltrúi Íslands í Council of European Professional Informatics Societies.

Svana situr nú í stjórn Stika ehf., Landsnets hf. og Haga hf. Hún er einnig formaður Samtaka sprotafyrirtækja á Íslandi og á sæti í Hátækni- og sprotavettvangi sem er samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs. Svana er varamaður í Vísinda- og tækniráði.

Áhugamál Svönu eru tengd störfum í fyrirtæki hennar, þ.e. frumkvöðlafræðum, nýsköpun, atvinnusköpun og útflutningi. Hún lætur málefni þjóðkirkjunnar til sín taka og vorið 2010 var hún kjörin á kirkjuþing.

Svana er gift Sæmundi E. Þorsteinssyni verkfræðingi hjá Símanum og eiga þau saman þrjá syni. Þeir eru Björn Orri, Sigurður Finnbogi og Þorsteinn. Svana og Sæmundur dansa argentínskan tangó þegar tækifæri gefast, en heilbrigt líf, útivera, skútusiglingar og líkamsrækt er sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar.


 
 
This website was made by WebHouse